Meira frá París

Jæja, ég ætla að halda áfram með Parísarumfjallanirnar. Málið er að ég hef verið nokkuð upptekin og gat því ekki bloggað í gær eins og ég hafði lofað.

.
lanvin


Meistari Alber Elbaz hefur gert undurfagra haustlínu fyrir Lanvin, eins og við var að búast. Línan var mjög svört og léku áferðir stórt hlutverk. Lakk, leður, loðfeldir, ruffluð efni og svo skreytingar á borð við perlur og glitrandi steina. Fyrir utan svarta litinn voru aðrir litir mest í jarðtónum. Að mínu mati voru kjólarnir það besta við sýninguna, þeir voru í nokkrum útgáfum: fyrst voru þeir elegant í klassískum sniðum; stuttir kokkteilkjólar úr efnastrimlum í fallegum litum tóku svo við; næst komu kjólar í lausari sniðum í gyðjustíl sem minntu á snið sumarlínunnar; sýningin endaði svo á dramatískari kjólum sem voru ýmist alskreyttir glitri eða glansefni í silfur og svörtu.

.
ninaricci


Lína Nina Ricci einkenndist af fallegum haustlitum – litir nýfallinna laufblaða og draumkennd munstur í fallegu silki og chiffon og öðrum penlegum efnum. Olivier Theyskens, hönnuðurinn, sem hefur leitt merkið í gegnum talsverðar breytingar á þeim tíma sem hann hefur verið við stjórnvöllinn, sagði línuna að þessu sinni vera svolítið skrýtna og ljóðræna, og ekki dökka. Í fyrstu komu fyrisæturnar fram á sýningarpallinn klæddar í aðsniðnar buxur, blússur og jakka allt í frekar lausum sniðum en svo voru það stuttir kjólar, áfram nokkuð víðir, en jakkarnir grófari, sem prýddu pallinn og að lokum síðkjólar. Í þessu öllu saman mátti gæta svolítilla rómantískara-, og eins og hönnuðurinn segir sjálfur, ljóðrænna áhrifa.

.
requiem

Þrátt fyrir að hönnuðurnir Raffaele Borriello og Julien Desselle séu einungis að sýna í annað sinn fyrir merkið Requiem, hafa þeir góða reynslu úr tískubransanum. Haustlínan sýndi gott merki um reynslu þeirra þar sem gæði, smáatriði og klæðskurður var til fyrirmyndar og ef til vill var svolítill hátískubragur yfir sýningunni. Það sem mér fannst áhugaverðast við línuna, var að þrátt fyrir að flíkurnar bæru merki um listræna hönnun voru þær samt vel klæðilegar.
 

.

stellamccartney

Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt hvað Stella McCartney tekur tískuna ekki of alvarlega. Það er alltaf léttleiki yfir línunum hennar og ekkert þvingað. Sniðin þægilega víð, munstrin skemmtileg og flíkurnar flögra á fyrirsætunum. Litirnir voru ekki mjög áberandi í þetta skiptið, fölgrár og svartur en munstur skipuðu stóran sess. Stella heldur sig inní sínum ramma og hennar ’föstu liðir’ eins og peysukjólar, swing kápur í hálfgerðum kúlusniðum og allar kósý prjónaflíkurnar sem eru hennar svar við loðfeldum, voru á sínum stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband