Færsluflokkur: Greinar
5.4.2008 | 19:13
Hvernig er best að klæðast sumartrendunum
1. Rómantík
Það sem einkennir rómantíska trendið eru fjaðrir, pífur, létt efni og fölir litir. Pífur og rufflur (ruffles) verða sérstaklega vinsælar. Hvað fjaðrir varða, þá getur verið erfitt að klæðast þeim án þess að þær séu örlítið búningalegar. Það eru því frekar smáatriðin sem gilda þar og einnig aukahlutir. Fjaðraður kjóll getur þó verið flottur ef hann er látinn vera aðalatriðið og öðru í útlitinu haldið minimalísku og nútímalegu. Chiffon efni koma sterk inn og litirnir eru frekar hreinir og ljósir.
2. Blómamunstur
Þetta er trend sem hefur náð miklum vinsældum nú þegar. Það sem einkennir það eru blómamunstur af ýmsum gerðum og stærðum. Flottast er þegar munstrin eru á léttum sumarkjólum, pilsum og þunnum blússum. Rufflur henta vel hér og svolítill hippafílingur er bara af hinu góða. Gladiator sandalar henta vel við þetta munstur, þar sem þeir gefa því aðeins hrárra lúkk. Best er að leita eftir örsmáum blómum eða frekar stórum, meðalvegurinn getur haft með sér of mikinn fortíðarfíling.
3. Gegnsæ efni
Eftir harða útlit vetrartískunnar kemur meira sakleysi. Þetta trend einkennist af mismunandi lituðum efnum sem hafa það sameiginlegt að vera þunn og gegnsæ. Það er best að hugsa vel um hverju maður klæðist undir og varast skal að hafa þau þröng. Gegnsæu efnin koma best út ef þau eru frekar litlaus og því fallegra að klæðast sterkari litum undir.
4. Útvíð pils
Pilsatrendið einkennist af mikilli vídd og kvenleika. Þau geta verið í ýmsum síddum en forðast skal að þau séu síðari en hnén, sérstaklega ef víddin er mikil. Mismiklar rykkingar eru í pilsunum og best að þær séu meiri í stuttum pilsum heldur en síðum. Þau þurfa að vera há í mittið og draga það inn til að fá athyglina þangað. Hvað efri partinn varðar, þá henta aðsniðnir bolir, jakkar og blússur best ef tekið er tillit til hlutfalla. Leggirnir skulu vera helst vera berir, leggings eru allavega bannaðar.
5. Innblástur frá Afríku
Afríkutrendin einkennast af klæðnaði í safarístíl og munstrum innblásin frá ættbálkum Afríku. Safarístíllinn hefur verið vinsæll síðastliðin sumur, en nú er hann fágaðri og litirnir frekar í beige tónum heldur en mosagrænum. Ermalaus skyrtukjóll er gott dæmi um hvernig má ná þessu lúkki. Hvað munstrin varðar koma batík og ikat hvað sterkust inn.
6. Mjó belti
Beltin hafa frekar verið í breiðari kantinum undanfarið, en með sumrinu koma mjó belti. Stíllinn er frekar grófur og brúnir tónar eru vinsælir. Það þykir smart að hafa þau svolítið löng og beygja það svo inn og láta endann hanga aðeins niður eða setja hnút. Flottast er að nota þau til að draga inn mittið á víðum og síðum kjólum í fyrirferðamiklum efnum.
7. Ökklabuxur
Aðalbuxnatrend sumarsins er án efa ökklabuxur. Þær einkennast af sídd sem er rétt fyrir ofan ökklann og eru þægilega víðar. Hægt er að nota buxur í venjulegri sídd og bretta svo upp á faldinn, hönnuður sýndu það í flestum tilfellum. Fallegir sumarsandalar henta einstaklega vel við buxurnar, sem og léttir jakkar.
8. Listræn áhrif
Munstur eru stór partur af sumartískunni og mátti gæta ýmissa listræna áhrifa. Þar sem kjólar í þessum munstrum eru oftast frekar fínir er best að klæðast þeim við aðeins fínni tilefni. Hér þarf að passa upp á hlutföllin, þar sem kjóllinn er áberandi skal varast að annað taki ekki athyglina af honum, eða geri útlitið flóknara.
Greinar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2008 | 20:10
Carine Roitfeld
Það sem er áhugaverðast við hana er líflega framkoman. Hún er þessi týpíska franska kona. Hún eltist ekki við að líta óaðfinnanlega út í fegurð hárið er alltaf smá messy, augabrýrnar grófar og hún notar ekki mikið af farða. Þrátt fyrir að vera á sextugsaldri er hún ung í anda og útliti. Hún hefur líkama á við tvítuga stúlku og andlitið sýnir ekki mikil merki um öldrun.
Hún hefur verið sögð ein best klædda kona heims. Stíllinn er elegant en samt fer hún oft á jaðarinn og sýnir hugrekki. Hún spilar leikinn ekki öruggt, heldur blandar snilldarlega saman nútímatrendum við klassískan lúxusklæðnað og tekur áhættu. Hún klæðir sig ekki of unglega en heldur hlutunum samt spennandi. Hún er í tískunni en ekki fórnarlamb hennar.
Við fyrstu sýn lítur hún út fyrir að spá mikið í klæðaburðinn. En hún hugsar samt ekki mikið um hvaðan hún fær áhrifin. Hún hefur ekki áhuga á að kunna alla tískusöguna út í gegn og þekkja nöfn á hverjum einasta hönnuði eitthvað sem maður lærir í tískuskóla. Hún segist hafa þetta allt í tilfinningunni, hún veit þegar henni finnst eitthvað spennandi og áhugavert. Eitt er þó víst hún hefur eitthverja náðartískugáfu og virkilega næmt auga fyrir stíl eitthvað sem er ekki hægt að læra í skóla.
Frægðarsól Carine hefur skinið skært allt frá því hún tók við ritsjórastöðunni. Hún endurmótaði blaðið eftir sinni eigin sýn. Franska útgáfan hefur eitthvað fram yfir hinar. Hugsunin á bakvið allt saman er listræn og útkoman er svolítið edgy, hrá, ögrandi og töff. Tímaritið hefur aldrei verið eins vinsælt og akkúrat núna.
Það hvernig tískan er sett fram er hvað áhugaverðast við Vogue Paris. Hún er sett beinskeytt fram, þér er ekki kennt hvernig þú átt að klæða þig eftir líkamsvexti eða eftir einhverjum ákveðnum aldri. Það er ekki mikið gert til að láta tískuna verða aðgengilegri fyrir lesendur. Það eru ekki Hollywood stjörnur sem prýða forsíðurnar, heldur fyrirsætur. Það gengur ekki allt út á tískuna sem söluvarning, heldur sem listform.
Carine stíliserar sjálf margar tískuseríur fyrir tímaritið. Hún byrjar ekki á byrjuninni í ferlinu, hún hugsar ekki um fötin fyrst. Hún segist búa til ákveðna sögu í hvert skipti sem hún stíliserar. Hún lítur á fyrirsætuna og býr til kvikmynd í höfðinu hver er þessi stelpa og hvaða sögu býr hún yfir. Sjálf segist hún elska að blanda saman kvenlegu við karlmannlegt. Það er mjög franskt og kynþokkafullt.
Í heimi Carine eru fyrirsætur aldrei of horaðar og demantar aldrei of dýrir. Tískan er hennar heimavöllur. Hún lifir og andar í heimi þar sem flestir eru óöruggir með sjálfan sig henni líður hvergi betur. Í þessum heimi hefur hún völd, hún er fyrirmynd hún er drottning tískuheimsins.
Greinar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2008 | 16:25
Tískubransinn á Íslandi
Maður er alltaf að heyra að íslenski tísku- og hönnunarbransinn sé að stækka og alltaf fleiri og fleiri hönnuðir að koma fram á sjónarsviðið. Ég er sammála því að bransinn er að stækka og hönnuðum að fjölga og úrvalið þar af leiðandi aldrei verið eins meira, en það er þó alltaf hægt að gera meira og gera betur.
Ef við tökum fyrst fjölmiðla. Fyrir það fyrsta er enginn almennilegur fjölmiðill sem miðast að tískubransanum - hvort sem það er alþjóðleg tíska eða innlend hönnun. Við höfum Nýtt Líf sem ég myndi frekar kalla lífstílsstímarit frekar en tískutímarit, þar sem blaðið býður uppá svo margt annað. Það var þó að skipta um stefnu og það sem ég hef séð af nýju útgáfunni er í rétta átt. Þannig við í rauninni höfum ekkert almennilegt tískutímarit sem fjallar um útlenda tískustrauma og ýmislegt innlent í senn. Við þurfum ekki annað en að líta til Norðurlandanna þar sem hið danska Costume og sænska Modette eru mjög vinsæl tískutímarit. Hingað til hafa íslenskir hönnuðir mjög mikið þurft að treysta á 'munnlega auglýsingu' eða umfjöllun í dagblöðum. Munnlega auglýsingin er svo sem skiljanleg þar sem Ísland er nú ekki stórt og oft geta þær verið árangursríkar, en væri ekki miklu betra að hafa einhvern aðgengilegan (og fagmannlegan) miðil?
Ef við tökum næst fyrir eitthvað sem tengir hvað mest tískubransann saman fyrir utan tímarit og fjölmiðla, þá eru það tískuvikur. Margir hugsa til New York, Parísar, Mílanó o.s.frv og finnast kannski Ísland ekki vænlegur kostur fyrir svo stóran atburð, en tískuvikur eru þó algengar í mörgum minni borgum. Auðvitað eru þær þá bara í samræmi við stærð borganna og landanna og því augljóst að íslensk tískuvika yrði seint einhver alþjóðleg tískuvika. Það sem er samt svo gott við tískuvikur í stað einstaka tískusýninga, er að þær þjappa iðnaðinum saman. Hönnuðir fá jafnvel umfjöllun um sig í erlendum fjölmiðlum og því er auglýsingin mikil og tækifærin fyrir nýja hönnuði frábær. Ég veit að það var starfrækt íslensk tískuvika hér á landi í einhver ár og að mínu mati var hún ekkert æðisleg, þótt nokkuð hafi verið um flotta hönnun. Ég man nú ekki af hverju hún leystist upp, en mig minnir að skipulagsleysi eða ósætti hönnuða við skipuleggjendur hafi verið málið (ef einhver man hvað kom uppá, endilega segið mér!). Núna hinsvegar er bransinn búinn að stækka svo mikið, að almennileg tískuvika væri einungis til góðs.
Íslensk hönnun hefur einungis orðið til hins betra á síðustu árum og við erum að sjá meiri gæði. Við lítum meira til útlanda fyrir innblástur og þessi þjóðlega hönnun með tilheyrandi fiskaroði, minkafeldum og því öllu, er að hverfa. Ef ég þarf hins vegar að segja eitthvað sem mér finnst að mætti fara betur, þá getur hönnunin verið svolítið einsleg stundum, þ.e.a.s hönnuðir eru kannski að gera eitthvað svipað og aðrir. Einnig finnst mér svolítið um algjörlega ómenntaða 'hönnuði' sem eru að selja flíkur og annað. Þótt það sé ekkert að því að vera ómenntaður þá verða gæðin og handbragðið því miður ekki alltaf góð. Það er akkúrat þessi einsleita hönnun sem á hér við. Annars fagna ég öllum þessum nýju og fersku hönnuðum og það er rosalega gaman að sjá til dæmis hvað nemendur Listaháskólans, núverandi eða fyrrverandi, eru að gera spennandi hluti.
Ég veit að það eru eflaust einhverjir sem lesa þennan pistil og spyrja af hverju ég sé að velta þessu fyrir mér. Er Ísland ekki bara það lítið, að það er ekki markaður fyrir tískutímarit og skipulagða tískuvirðburði? En miðað við þróunina og ef við lítum á hvað Íslendingar eru uppteknir af tísku almennt þá er það mér hugsunarefni hvort ekki væri hægt að bæta stöðuna, bæði fyrir hönnuði og annað tískufólk, en einnig fyrir þá sem vilja njóta og fylgjast með tískunni.
Endilega komið með ykkar pælingar og skoðanir hvort sem þið eruð sammála og ósammála.
Greinar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)