Færsluflokkur: Tískusýningar
18.3.2008 | 18:21
Það besta frá NY, París & Mílanó
Ef þið hafið ekki haft tíma eða nennu til að fylgjast með öllum sýningum á nýafstöðnum tískuvikum, þá hefur Style.com komið til bjargar með hnitmiðuðum myndböndum af því besta í hverri tískuborg. Viðtöl við hönnuði og smá brot af línunum ásamt álitum tískufólksins er eitthvað sem enginn vill missa af!
New York
Mílanó
París
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 18:46
Meira frá París
Jæja, ég ætla að halda áfram með Parísarumfjallanirnar. Málið er að ég hef verið nokkuð upptekin og gat því ekki bloggað í gær eins og ég hafði lofað.
.
Meistari Alber Elbaz hefur gert undurfagra haustlínu fyrir Lanvin, eins og við var að búast. Línan var mjög svört og léku áferðir stórt hlutverk. Lakk, leður, loðfeldir, ruffluð efni og svo skreytingar á borð við perlur og glitrandi steina. Fyrir utan svarta litinn voru aðrir litir mest í jarðtónum. Að mínu mati voru kjólarnir það besta við sýninguna, þeir voru í nokkrum útgáfum: fyrst voru þeir elegant í klassískum sniðum; stuttir kokkteilkjólar úr efnastrimlum í fallegum litum tóku svo við; næst komu kjólar í lausari sniðum í gyðjustíl sem minntu á snið sumarlínunnar; sýningin endaði svo á dramatískari kjólum sem voru ýmist alskreyttir glitri eða glansefni í silfur og svörtu.
Lína Nina Ricci einkenndist af fallegum haustlitum litir nýfallinna laufblaða og draumkennd munstur í fallegu silki og chiffon og öðrum penlegum efnum. Olivier Theyskens, hönnuðurinn, sem hefur leitt merkið í gegnum talsverðar breytingar á þeim tíma sem hann hefur verið við stjórnvöllinn, sagði línuna að þessu sinni vera svolítið skrýtna og ljóðræna, og ekki dökka. Í fyrstu komu fyrisæturnar fram á sýningarpallinn klæddar í aðsniðnar buxur, blússur og jakka allt í frekar lausum sniðum en svo voru það stuttir kjólar, áfram nokkuð víðir, en jakkarnir grófari, sem prýddu pallinn og að lokum síðkjólar. Í þessu öllu saman mátti gæta svolítilla rómantískara-, og eins og hönnuðurinn segir sjálfur, ljóðrænna áhrifa.
Þrátt fyrir að hönnuðurnir Raffaele Borriello og Julien Desselle séu einungis að sýna í annað sinn fyrir merkið Requiem, hafa þeir góða reynslu úr tískubransanum. Haustlínan sýndi gott merki um reynslu þeirra þar sem gæði, smáatriði og klæðskurður var til fyrirmyndar og ef til vill var svolítill hátískubragur yfir sýningunni. Það sem mér fannst áhugaverðast við línuna, var að þrátt fyrir að flíkurnar bæru merki um listræna hönnun voru þær samt vel klæðilegar.
.
Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt hvað Stella McCartney tekur tískuna ekki of alvarlega. Það er alltaf léttleiki yfir línunum hennar og ekkert þvingað. Sniðin þægilega víð, munstrin skemmtileg og flíkurnar flögra á fyrirsætunum. Litirnir voru ekki mjög áberandi í þetta skiptið, fölgrár og svartur en munstur skipuðu stóran sess. Stella heldur sig inní sínum ramma og hennar föstu liðir eins og peysukjólar, swing kápur í hálfgerðum kúlusniðum og allar kósý prjónaflíkurnar sem eru hennar svar við loðfeldum, voru á sínum stað.
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 20:12
Tískuvikan í París
Mér finnst tískuvikan í París sú besta af öllum og þetta skipti var engin undantekning. Það er fyrir löngu orðin staðreynd að París er tískuborgin. Mörg elstu tískuhús heims sbr. Balenciaga og Lanvin, sýna, ásamt nýrri merkjum á borð við Viktor & Rolf og breska hönnuðurinn Stella McCartney. París er ábyggilega eftirsóttasta tískuvikan af hönnuðum til að sýna á og því koma þeir alls staðar frá. Það voru virkilega margar línur sem ég var hrifin af að þessu sinni og erfitt að velja bara nokkrar til að fjalla um. Dæmi um flotta hönnun sem ég mun ekki taka sérstaklega fyrir, var Alessandra Facchinetti fyrir Valentino, en eins og margir vita lét hann af störfum nýverið. Hún var undir svolitlu álagi frá tískuheiminum til að uppfylla kröfur tískuhússins, en hún stóð sig með prýði og tókst snilldarlega að yngja upp á hönnunina, ásamt því að halda svolítið í sögu hússins. Það voru því flestir sammála því að henni hefði tekist vel til. Einnig tókst lína Giambattista Valli einkum vel. Hugmyndin að litapallettunni, blóðlaus kona sem endar í ástríðu, kom vel til skila þar sem sýningin byrjaði í ljósum litum, fór svo yfir í svartan og endaði í rauðum tónum. Klassísku Giambattista Valli sniðin voru til staðar, með miklu volume á mjöðmum. Ein önnur lína sem vakti athygli mína var Sonia Rykiel. Bjartir litir, skemmtileg munstur og bros fyrirsætanna gáfu sýningunni mikið líf.
.
Nicolas Ghesquière hefur svo sannarlega stimplað sig inn á kortið í tískuheiminum sem hönnuður Balenciaga. Fyrir haustlínuna leitaði Nicolas í innblástur frá spænskri menningu í bland við film noir kvikmyndir. Einnig hélt hann í vísindalega fílinginn sem hann hefur unnið með í síðustu línum. Þar koma latex, plastefni og framúrstefnuleg snið sterk inn. Skartið, sem var í mjög miklum glamúr stíl, spilaði skemmtilega með ólíkum stefnum. Spænski innblásturinn var þó viðeigandi því Cristóbal Balenciaga, stofnandi tískuhússins, var spænskur og því við hæfi að heiðra upprunann. Í línunni mátti sjá flott munstur sem Nicolas sagði vera eldri hönnun Cristóbal.
.
Í fararbroddi Balmain er hönnuðurinn Cristophe Decarnin. Hann sagði línuna fyrir haustið vera rokkara- og pönkaralegri en fyrir sumarið. Línan var frjálsleg með leðri, glitri og glans, hlébarðamunstri og stuttum partýkjólum. Fatnaðurinn bar yfir sér ferskan og unglegan anda og mátti jafnvel gæta ýmissa hippaáhrifa í bland við rokkið. Það krefst hugrekkis að klæðast áberandi munstrum og glitri og því er klæðnaðurinn ekki fyrir íhaldssama, þótt inn á milli hafi reyndar sést í einstaka svartan kjól og plain jakka aðallega til að spila á móti öllu rokkinu.
.
Út í aðeins meiri kvenleika, lína Chloé innihélt mikið af chiffon efni, oft svo þunnu að það var gegnsætt en einnig voru notuð nokkur lög og þá voru bróderingar algengar sem skreytingar. Aðallitur sýningarinnar var navy blár í bland við listræn blómamunstur í svolitlum gamaldagsstíl. Svíanum Paulo Melim Andersson tókst enn og aftur að gera kvenlega línu en með þægilegum sniðum og listrænum og skemmtilegum smáatriðum.
.
Emanuel Ungaro lét af störfum árið 2001 og Peter Dundas tók við. Nú hefur hins vegar aftur orðið breyting og hinn ungi og efnilegi Esteban Cortazar orðinn hönnuður merkisins. Þrátt fyrir þekkta litagleði Emanuel voru litirnir að þessu sinni fölir með undantekningu frá skærbleikum og dökkgráum. Munstrin voru sérlega falleg og grófar prjónafléttur gáfu tóninn fyrir prjónaflíkur línunnar. Jersey efni voru oft fallega rykkt og útkoman voru draumleg snið. Að öllu jöfnu tókst línan að mínu mati afburða vel miðað við hversu mátti búast í fyrstu línunni.
.
Lína Givenchy sem Riccardo Tisci hannar, var í stuttu máli dökk rómantík með svolitlum goth áhrifum. Það sem Riccardo hafði þó í huga við gerð línunnar voru ferðalög hans til Suður Ameríku. Við nánari skoðun kom í ljós að víða mátti geta innblástursins í flamenco dönsurum, nautabönum og kaþólskri trú. Þessi áhrif voru þau kannski einna helst í smáatriðum og aukahlutum. Klæðnaðurinn var að mestu klæðskornir jakkar og kápur og leðurbuxur í svörtu til móts við kvenlegra og rómantískra blússa. Fullkomnar samsetningar frá mismunandi áhrifum.
.
Fleiri umfjallanir frá París muna koma koma á bloggið á morgun.
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2008 | 21:40
Balenciaga & Balmain
Á meðan ég vinn í því að skoða allar sýningarnar frá París, og mun ég vonandi geta sett inn umfjöllun frá bestu sýningunum á morgun eða miðvikudaginn, þá ætla ég að setja inn góð myndbönd frá Style.com og Elle tímaritinu frá sýningum Balenciaga og Balmain.
Balenciaga
Balmain
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2008 | 18:55
Sýning Burberry fyrir haustið
Þótt að Parísartískuvikan sé í gangi núna og í rauninni að verða búin, ætla ég samt að gera umfjöllun um sýningu Burberry Prorsum, sem var á tískuvikunni í Mílanó. Úttekt á París kemur svo vonandi strax eftir helgi.
Ég féll algjörlega fyrir línu Burberry sem var í alla staði frábær að mínu mati. Hönnuður tískuhússins, Christopher Bailey, tókst að gera lúxuslínu með ólíkum áferðum og efnum og sterkum en fallegum litum.
Línan innihélt kápur í ýmsum sniðum og notaði Bailey stórar kápur jafnvel yfir fallega kokkteilkjóla. Húfur í 'grunge' stíl gáfu óneitanlega sýningunni unglegan blæ og tónaði ríkuleg efnin niður. Töskur, skór og skart voru ekki af verri endanum og fyrirferðamikið skartið sérstaklega, gaf sýningunni skemmtilegt yfirbragð. Í heildina var svolítið rokkívaf í línunni en lúxusinn var þó ekki langt undan. Það má eiginlega segja að Bailey hafi leikið sér svolítið með efni og áferðir - en hélt sig samt innan rammans.
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 16:47
Lúxus í Mílanó
Tískuvikan í Mílanó fyrir næsta vetur var í vikunni sem var að líða og það var nokkuð mikið um lúxus eins og venjulega. Við erum að tala um loðfeldi, glamúr og eðalefni. Í stað þess að fjalla um hverja sýningu fyrir sig ætla ég að skipta þessu niður í trend að þessu sinni.
Hjá Gucci, Moschino og Roberto Caballi mátti sjá áhrif frá Rússlandi með þjóðlegum munstrum. Í bland við rússneska þemað var svolítill rokkandi og hippaleg snið.Sokkabuxur í öllum mögulegum litum; grænum, fjólubláum, appelsínugulum, rauðum og bláum voru virkilega áberandi hjá hönnuðum eins og Bottega Veneta, Emilio Pucci, Iceberg og Moschino. Litirnir voru yfirleitt ekki mjög sterkir og oftar en ekki harmoneruðu sokkabuxurnar við skóna og dressið.
Þessi týpísku ítölsku munstur voru hjá hönnuðum Maruizio Pevoraro, Missoni og Emilio Pucci.
Hjá öllum stóru tískuhúsunum mátti sjá loðfeldi. Þeir voru stór partur af sýningum Marni, Fendi og Gucci.
Skíðalúkkið með tilheyrandi loðkrögum og dúnúlpueffektum var bæði á sýningarpöllum Emilio Pucci og Iceberg.
Iceberg, Roberto Cavalli og MaxMara áttu það sameiginlegt að sýna grófar prjónaflíkur, oft með skemmtilegum smáatriðum eins og fléttum.
Skautaskórnir halda áfram frá þessum vetri til þess næsta eins og var að sjá hjá Missoni, Prada, Iceberg og Emilio Pucci. Skautaskórnir voru í flestum tilfellum reimaðir upp að ökkla en náðu einnig upp að hnjám eða jafnvel upp á læri.
Sýning Prada einkenndist af blúndum og aftur blúndum. Einnig mátti sjá blúndur í sýningum La Perla, Roberto Cavalli og Versace.
Glamúrinn var ekki langt undan og glitrandi steinar prýddu margar flíkurnar. Lína MaxMara var nokkuð stílhrein, en glamúrinn poppaði hana þó upp. Aðrar sýningar sem innihéldu glamúr og glans voru t.d. 6267, Alberta Ferretti og Derercuny.
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2008 | 20:23
Frumleiki í London
Núna er tískuvikan í London búin og það er alltaf gaman að sjá ungu og upprennandi hönnuðina þar. Tískuvikan er ekki eins veigamikil og í New York og París en samt sem áður var alveg fullt af flottri hönnun. Notagildi er ekki efst í huga hjá mörgum hönnuðanna, aðallega þá hjá þessum yngri. Þannig voru kjólar sem minntu heldur á arkitektúr hjá Roksana Ilincic og Giles sýndi mjög svo óvenjulegan klæðnað. En eins og áður hef ég valið nokkra góða hönnuði að mínu mati.
.
Á sýningu Armand Basi, þar sem Markus Lupfer er í fararbroddi, mátti líta á ýkt snið í sterkum litum. Litasamsetningin á munstrunum var nánast barnaleg og sniðin báru svolítinn dúkkufíling. Lupfer sagði um sýninguna að maður ætti að hafa gaman af fötum og njóta lita.
Christopher Kane nær enn og aftur að koma öllum á óvart. Lína hans innihélt mikið af pallíettum og öðrum skreytingum. Það var þó enginn ýktur glamúr þar sem hann náði jafnvægi með því að para grófar peysur og saklaus, gegnsæ chiffon efni með öllu glitrinu.
.
Lína Louise Goldin samanstóð af prjónaefnispeysum með tæknilegum munstrum og má segja að hún hafi sett peysuklæðnað á annað stig. Hún segist hafa blandað saman hefðbundnum munstrum inúíta við forritunarkóða tölvuforrita. Útkoman varð nokkurs konar 'geim eskimóar'.
.
Í línu Meadham Kirchhoff mátti líta á skósíð pils sem voru ýmist pöruð með síðum peysum, þunnum blússum eða jafnvel loðfeldi. Einnig voru hefðbundnari pils í stíl vinnufatnaðar framakonu. Hönnuðirnir segjast hafa haft framakonuna í huga við gerð línunnar, konuna sem vill klæða sig eftir skapi. Þeir bjuggu því til línu sem innihélt nauðsynjarnar í fataskápinn þessa tilteknu týpu.
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2008 | 15:28
Danska tískuvikan
Á sýningu Baum un Pferdgarten var blandað svolítið saman kvenlegum stíl við ferskari, yngri stíl. Í byrjun var mikið um dökkbláan lit og hvítan í nokkuð fáguðum sniðum, en svo urðu litirnir ljósari og sniðin frjálslegri. Það var alltaf ákveðinn kvenleiki, þótt inná milli hafi sniðin verið lausari og litirnir djarfari. Það var sem sagt mikill fjölbreytileiki.
Bruuns Bazaar byrjaði með svart og hvítt en svo voru litirnir allsráðandi, bæði navy blár, bleikur og svo var eitthvað um munstur. Það var minni kvenleiki ráðandi þarna en samt ýmis falleg smáatriði.
Henrik Vibskov er alltaf frumlegur og það fyrsta sem sýningargestir sáu var sýningarpallur skreyttur pastelgrænum frauðhólkum. Fyrirsæturnar gengu svo fram með tjull fyrir augunum og sýndu skemmtilega hönnun. Línan var nokkuð jarðbundnari en ég hafði búist við, fyrir utan einstaka glansandi spandex galla og leggings. Það er í raun ekki hægt að lýsa línunni í einu orði, en listrænt og frumlegt kemur samt fljótt upp í hugann. .
Línan frá Noir var með snert af lúxus, þar sem ríkmannleg efni eins og loðfeldur og leður kom við sögu. Klassísk snið voru höfð í hávegum þótt öllu jöfnu hafi nútímalegur blær verið yfir línunni. Litirnir voru einnig nokkuð klassískir, en sýningin var nánast öll svört og hvít.
.
.
Það sem mér fannst mest spennandi við línu Wood Wood var litapallettan. Hún var nokkuð mild, en samt sem áður blönduðust sterkir litir eins og vínrauður fallega saman við þá mildu. Ég ætla að fylgjast með Wood Wood nánar næstu tímabil.
Þess má geta að leður leggins/þröngar buxur voru í mjög mörgum sýningum. Ýmist voru þær sýndar með svörtu að ofan eða munstruðu - með loðfeldi eða meira leðri. Kannski of mikið af því góða, en spurning hvort þetta verði trendið í haust?
Til að nálgast þessi merki á Íslandi, þá fæst Baum und Pferdgarten í Ilse Jacobsen og Henrik Vibskov og Wood Wood fæst í KronKron. Þetta eru þó haust/vetrar línur, þannig þær koma þá ekki í verslanirnar fyrr en í haust.
Myndir frá copenhagenfashionweek.com
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2008 | 18:44
Hervé Léger
Hervé Léger er þekktastur fyrir hönnun sína á svokölluðum bandage kjólum, sem eru níðþröngir og falla undir trendið body-con eða lauslega þýtt sem sjálfsmeðvitað. Ekki er þó hægt að vera annað en meðvitaður um líkamann sinn ef klæðast á einum af kjólum hans. Efnin í kjólunum er ríkt af lycra og spandexi til að ýta enn undir kvenlegan vöxt.
Léger var mjög vinsæll á 9.áratugnum og má segja að hátindur ferilsins hafi verið á þeim tíma. Fyrir nokkrum árum, þegar trendið birtist aftur á tískupöllunum, var merkið endurreist. Það var þó ekki hönnuðurinn sjálfur sem kom þar að verki, en nútímaútgáfan af kjólum Léger er byggð á gömlu módelunum.Í dag eru vintage útgáfurnar ekkert óvinsælli en nýju, og selur vintage verslunin Decades í Los Angeles mikið af gamalli hönnun hans til stjarnanna. Það eru líka mörg nöfn Hollywood stjarna sem hafa klæðst Hervé Léger kjólum, allt frá ungstirnum á borð við Rihanna og Nicole Richie til eldri gyðja eins og Catherine Zeta Jones og Sharon Stone.
Victoria Beckham / Sophia Bush / Minka Kelly
Fyrir haustlínuna 2008 var fenginn hönnuðurinn Max Azria til að krydda upp á merkið og tókst það svo sannarlega. Hann setti sitt touch á fyrri hönnun og bauð auk kjóla upp á kápur og buxur. Línan var mjög fjölbreytt og litapallettan virkilega haustleg og elegant.
Myndir frá celebritygossip iheartthat queenoftheposhandbroke
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 18:16
Tískuvikan í New York
Núna er tískuvikan í New York fyrir næsta haust og vetur afstaðin og að venju var nokkuð um flotta hönnun. Ég ætla að taka nokkrar sýningar fyrir sem mér fannst eitthvað varið í.
Sýning Alexander Wang var dökk og dularfull. Fatnaðurinn var töffaralegur með rifnum sokkabuxum, víðum buxum og stórum jökkum. Það voru þó þröng pils sem gáfu kvenlega tóninn. Leður var notað til að gefa enn harðara útlit.
Max Azria hafði kvenleika í fyrirrúmi við gerð BCBG Max Azria línunnar. Leðurbelti voru notuð til að sýna mittið og gefa lokapunktinn. Litirnir voru mildir með svörtu inn á milli. BCBG er alltaf að breytast. Þessi stefna er klæðileg með hreinum línum. sagði Lubov Azria, listrænn stjórnandi tískuhússins, fyrir sýninguna.
Litirnir hjá Behnaz Sarafpour voru fallegir; fjólublár, ljósgulur og navy blár í bland við svartan, hvítan og gráan. Falleg munstur og smá glamúr í formi pallíetta og glitrandi steina gáfu líf í sýninguna. Virkilega smart.
Jeremy Laing sýndi bæði víða kjóla sem hreyfðust fallega á fyrirsætunum og svo aðþrönga body-con kjóla sem voru oftar en ekki með rennilás að framan til að gefa hrátt útlit. Það var eins með buxurnar sem voru annars vegar stuttar og þröngar, og hins vegar mjög víðar. Línan samanstóð af frekar einfaldri hönnun en engu að síður áhugaverðri.
Gene Kang, annar hönnuða Y & Kei, lýsti línunni fyrir haustið sem rómantískri en þó voru sniðin klassísk. Munstrin voru ekki týpisk blómamunstur, heldur með nútímalegum blæ. Hönnuðirnir náðuað setja fram rómantíska línu án allrar væmni.
Næst er það svo London og mikið af upprennandi hönnuðum þar á ferð, ásamt reyndari. Sjálf er ég spenntust fyrir Luella Bartley, Marios Schwab, Christopher Kane, Jens Laugesen og Armand Basi.
Myndir style.com
Tískusýningar | Breytt 5.4.2008 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)