Færsluflokkur: Bloggar

Ný slóð

www.mode.blog.is

Ný slóð


Tískubransinn á Íslandi

Maður er alltaf að heyra að íslenski tísku- og hönnunarbransinn sé að stækka og alltaf fleiri og fleiri hönnuðir að koma fram á sjónarsviðið. Ég er sammála því að bransinn er að stækka og hönnuðum að fjölga og úrvalið þar af leiðandi aldrei verið eins meira, en það er þó alltaf hægt að gera meira og gera betur.

Ef við tökum fyrst fjölmiðla. Fyrir það fyrsta er enginn almennilegur fjölmiðill sem miðast að tískubransanum - hvort sem það er alþjóðleg tíska eða innlend hönnun. Við höfum Nýtt Líf sem ég myndi frekar kalla lífstílsstímarit frekar en tískutímarit, þar sem blaðið býður uppá svo margt annað. Það var þó að skipta um stefnu og það sem ég hef séð af nýju útgáfunni er í rétta átt. Þannig við í rauninni höfum ekkert almennilegt tískutímarit sem fjallar um útlenda tískustrauma og ýmislegt innlent í senn. Við þurfum ekki annað en að líta til Norðurlandanna þar sem hið danska Costume og sænska Modette eru mjög vinsæl tískutímarit. Hingað til hafa íslenskir hönnuðir mjög mikið þurft að treysta á 'munnlega auglýsingu' eða umfjöllun í dagblöðum. Munnlega auglýsingin er svo sem skiljanleg þar sem Ísland er nú ekki stórt og oft geta þær verið árangursríkar, en væri ekki miklu betra að hafa einhvern aðgengilegan (og fagmannlegan) miðil?

Ef við tökum næst fyrir eitthvað sem tengir hvað mest tískubransann saman fyrir utan tímarit og fjölmiðla, þá eru það tískuvikur. Margir hugsa til New York, Parísar, Mílanó o.s.frv og finnast kannski Ísland ekki vænlegur kostur fyrir svo stóran atburð, en tískuvikur eru þó algengar í mörgum minni borgum. Auðvitað eru þær þá bara í samræmi við stærð borganna og landanna og því augljóst að íslensk tískuvika yrði seint einhver alþjóðleg tískuvika. Það sem er samt svo gott við tískuvikur í stað einstaka tískusýninga, er að þær þjappa iðnaðinum saman. Hönnuðir fá jafnvel umfjöllun um sig í erlendum fjölmiðlum og því er auglýsingin mikil og tækifærin fyrir nýja hönnuði frábær. Ég veit að það var starfrækt íslensk tískuvika hér á landi í einhver ár og að mínu mati var hún ekkert æðisleg, þótt nokkuð hafi verið um flotta hönnun. Ég man nú ekki af hverju hún leystist upp, en mig minnir að skipulagsleysi eða ósætti hönnuða við skipuleggjendur hafi verið málið (ef einhver man hvað kom uppá, endilega segið mér!). Núna hinsvegar er bransinn búinn að stækka svo mikið, að almennileg tískuvika væri einungis til góðs.

Íslensk hönnun hefur einungis orðið til hins betra á síðustu árum og við erum að sjá meiri gæði. Við lítum meira til útlanda fyrir innblástur og þessi þjóðlega hönnun með tilheyrandi fiskaroði, minkafeldum og því öllu, er að hverfa. Ef ég þarf hins vegar að segja eitthvað sem mér finnst að mætti fara betur, þá getur hönnunin verið svolítið einsleg stundum, þ.e.a.s hönnuðir eru kannski að gera eitthvað svipað og aðrir. Einnig finnst mér svolítið um algjörlega ómenntaða 'hönnuði' sem eru að selja flíkur og annað. Þótt það sé ekkert að því að vera ómenntaður þá verða gæðin og handbragðið því miður ekki alltaf góð. Það er akkúrat þessi einsleita hönnun sem á hér við. Annars fagna ég öllum þessum nýju og fersku hönnuðum og það er rosalega gaman að sjá til dæmis hvað nemendur Listaháskólans, núverandi eða fyrrverandi, eru að gera spennandi hluti.

Ég veit að það eru eflaust einhverjir sem lesa þennan pistil og spyrja af hverju ég sé að velta þessu fyrir mér. Er Ísland ekki bara það lítið, að það er ekki markaður fyrir tískutímarit og skipulagða tískuvirðburði? En miðað við þróunina og ef við lítum á hvað Íslendingar eru uppteknir af tísku almennt þá er það mér hugsunarefni hvort ekki væri hægt að bæta stöðuna, bæði fyrir hönnuði og annað tískufólk, en einnig fyrir þá sem vilja njóta og fylgjast með tískunni.

Endilega komið með ykkar pælingar og skoðanir hvort sem þið eruð sammála og ósammála.


Fyrsta færslan

Velkomin á bloggið.

Ég hef mikinn áhuga á tísku og öllu sem henni við kemur. Ég hef haldið úti tískubloggi á ensku í rúmt hálft ár og hef fengið góð viðbrögð. Ég vildi samt opna blogg á íslensku þar sem ég tók eftir því að töluvert af Íslendingum skoðuðu hitt bloggið.

Ég mun aðallega blogga um tísku; þá sýningarnar, hönnuði, módel, trend, stíl hjá stjörnunum, förðun, fegurð og ýmislegt annað tilfallandi.

Ég vona að þið eigið eftir að hafa gaman af og endilega skiljið eftir ykkar skoðun í commentunum!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband